Að trúa ekki á trúleysi

Það er kannski ekki á trúar- trúleysisumræður bætandi, en samt..

Ég hef fylgst með nokkrum þráðum um þar sem trúaðir og trúlausir eru að deila og svo sem gott eitt um það að segja.

Það sem truflar mig, trúlausan manninn, er endalaust staglið á borð við "það eru nú allir trúaðir", "þið trúið nú líka", "þið eruð nú mesta ofsatrúarfólkið" og "trúleysi er ekki til".

Þetta er orðið svo vandræðalega hallærislegt að ég fór að velta fyrir mér hvers vegna trúuðum er svona mikið í mun að klína trúarstimplinum á allt og alla.

Að grunni til finnst mér þetta hreinn dónaskapur, þeas. að einhver þykjast vita betur en ég hvort ég trúi eða ekki - þeir sem halda þessu fram eru einfaldlega ekki viðræðuhæfir.

Svipar til og ég væri stanslaust að fullyrða við þá sem trúa, "nei, þú trúir ekki neitt, ég veit þetta betur en þú".

En í framhaldinu fór ég að velta fyrir mér hvað veldur.

Getur virkilega verið að svona margir séu til sem einfaldlega skilja ekki hvað það er að vera trúlaus?

Eða er þetta einhvers konar sjálfhverfa, "ef ég er ekki svona þá getur enginn annar verið svona"?

Eða getur þetta einfaldlega verið einhvers konar minnimáttarkennd. Að þeir sem bregðast svona við finnist eitthvað lítilmótlegt við að játa að trúa - sem mér finnst engin þörf á, svo það sé á hreinu - og sér til varnar þurfi þeir nauðsynlega að koma sama stimpli á alla aðra. Svona - ef ég má taka vont og auðvitað óskylt dæmi í eðli sínu - eitthvað í ætt við að skammast sín fyrir að hafa gaman af að hlusta á Abba en ákveða sér til varnar að allir aðrir hljóti nú að hafa innst inni gaman af Abba. Svona ég er nú ekkert verri en hinir. Sem er auðvitað skondin nálgun því ég er ekkert að gera lítið úr trú þeirra sem hafa sína trú í friði.

PS. Og svo það sé á hreinu, ég þoli ekki Abba, og hef aldrei gert.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorvaldur Guðmundsson

 Sæll Valgarður. Ég tek nú yfirleitt ekki umræðu um trúmál en mátti til því mér finnst færslan þín góð og laus við hroka og ergelsi eins og margar færslur um sama efni hér á bæ.

Ég hef aldrei getað skilið þetta ergelsi milli trúaðra og þeirra sem kalla sig trúlausa. Ég er trúlaus og mér er bara alveg nákvæmlega sama hvað öðrum finnst um það. Í mínum huga er trúleysingi maður sem lætur trú sig engu varða og ergir sig ekki á því þótt aðrir séu trúaðir eða á trúarbrögðum almennt. Hann tekur ekki umræðu um trúarbrögð því þau skipta hann engu máli. Hann getur vel setið  athafnir í kirkjum, moskum eða öðrum trúarmusterum því að í hans huga er kirkja bara hús með turni og athöfnin sjálf snertir ekki við honum í hvoruga áttina. Síðan er það sem mér finnst hlægilegast hjá þeim sem segjast vera trúlausir er að það má alls ekki jarðsyngja þá í kirkju né jarða þá í vígðri mold. Hvaða máli getur það skipt trúlausan mann hvort hann er grafinn í mold sem annar maður hefur "blessað" nú eða steiktur á teini og étinn eða bara settur í trjátætarann. Hann er jú dauður ekki satt og er ekkert nema umbúðirnar.

Þorvaldur Guðmundsson, 20.11.2009 kl. 17:40

2 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Þorvaldur Guðmundsson

Nú er ekkert nema gott um það að segja að þetta sé þitt viðhorf til þess sem það þýðir að vera trúlaus. Hið besta mál og að mörgu leyti bæði skynsamlegt og rökrétt.

Hitt er annað mál að margir sjá þetta öðruvísi. Ég t.d. kann ekki við að fara með bænir og signa mig eða annað í þeim dúr. Ég myndi samt aldrei láta það verða neitt vandamál, en mér þykir það hræsni og vanvirðing við trú hinna, að þykjast og fara með innihaldslaust bull.

Mér finnst það í ljósi þessara viðhorfa minna mikilvægt að fólk hafi val um að lifa lífi sínu án þess að þurfa að ljúga svona, og án þess að fara mis við allan fjárann af siðavenjum á borð við fermingar og giftingar. Þessir hlutir voru jú til fyrir daga kristni og hafa alltaf haft þá merkingu að barn sé að stálpast og að karl og kona ætli að vera saman.

Auk þess þykir mér sorglegt að horfa upp á firringu í nafni trúarbragða eins og sköpunartrú og ofsaviðkvæmni múslíma.

Þannig að alveg eins og ég get skilið þitt sjónarmið, þá vona ég að þú getir skilið okkar sem erum aðeins erfiðari trúleysingjar en þú

mbk,

Kristinn Theódórsson, 20.11.2009 kl. 20:13

3 Smámynd: Þorvaldur Guðmundsson

Sæll Kristinn.

Það tók mig langan tíma að taka þá ákvörðun sem ég hef tekið. Eftir langan lestur og pælingar á Biblíunni og trúarbragðasögu tók ég mína ákvörðun fyrir þó nokkrum árum og er sáttur við hana. Einhver annar sem hefði farið í gegnum sama lestur og pælingar hefði ef til vill tekið þveröfuga afstöðu en ég. En þetta var mín ákvörðun og mestu skiptir að ég sé sáttur við hana og aðrir virði hana. Það sama hefði gilt ef ég hefði tekið afstöðu í hina áttina.

Hvað varðar bænir og signanir og annað í þeim dúr í þau skipti sem ég fer í kirkju þá er það ekkert mál ég bara einfaldlega sleppi því. Ekki vegna virðingar við hina trúuðu heldur vegna þess að ég finn enga þörf hjá mer fyrir slíkt og er því ekki að ljúga neinu né blekkja neinn.

Við eigum nú svo langt í land hvað varðar hinn algera sannleika í sköpunarsögunni að flest í þeim efnum eru að mestu getgátur en að að sjálfsögðu komumst við ekki að sannleikanum ef við leitum hans ekki.

Trúboð hefur alltaf farið í mínar fínustu taugar því mér finnst einfaldlega rangt að þröngva eigin skoðunum upp á aðra og að fullorðnir þröngvi skoðunum sínum upp á börn er bara ljótt. Það sama á við um trúleysi það er líka jafn fáránlegt að boða það. Þetta argaþras milli ofsatrúaðra og trúleysingja virkar því ekki á mig sem trú eða trúleysi heldur miklu frekar leit að hinu eina sanna.

Þorvaldur Guðmundsson, 21.11.2009 kl. 00:59

4 Smámynd: Kristinn Theódórsson

Þorvaldur Guðmundsson

Takk fyrir svarið. Þú segir:

Við eigum nú svo langt í land hvað varðar hinn algera sannleika í sköpunarsögunni að flest í þeim efnum eru að mestu getgátur en að að sjálfsögðu komumst við ekki að sannleikanum ef við leitum hans ekki.

Nú veit ég ekki hversu vel lesinn þú ert í þessum fræðum, en það er fullkomlega þekkt staðreynd að guð skapaði ekki menn í núverandi mynd fyrir nokkur þúsund árum. Það er því ekki um getgátur að ræða þegar menn hafna sköpunarsögunni. Það er bara staðreynd að hún er röng.

En upphaf lífs og upphaf heims eru að sjálfsögðu óljós fræði og pláss á ýmsum stöðum fyrir guðleg inngrip. En að hafna þróun er firra, um það verður varla deilt.

Trúboð hefur alltaf farið í mínar fínustu taugar því mér finnst einfaldlega rangt að þröngva eigin skoðunum upp á aðra og að fullorðnir þröngvi skoðunum sínum upp á börn er bara ljótt. Það sama á við um trúleysi það er líka jafn fáránlegt að boða það.

Trúboð er að boða trú án sannana. En að fjalla um vel þekktar staðreyndir eins og vísindi er nánast andstæðan, og í raun vitrænni pæling en að segja frá skoðunum sínum í pólitík. Í pólitík er jú bara verið að giska í allar áttir, það veit enginn neitt fyrir víst.

Annars má deila um hvort nokkur maður sé að boða trúleysi. Ég hef gaman að að fjalla um hvernig trú kemur mér fyrir sjónir og margar augljósar gloppurnar þeirri hugmyndafræði. En það er eflaust enginn að láta segjast þó hann lesi bloggið mitt.

Að lokum þarf enginn að vera trúlaus í þeim skilningi að hann hafni mögulegri tilvist guðs. Það sem menn þurfa hinsvegar að læra að mínu mati er að fullyrða aðeins um hluti sem er hægt að vita eitthvað um, en ekki bara segja það sem þeir vilja að sé satt.

Kristinn Theódórsson, 21.11.2009 kl. 09:04

5 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Þorvaldur,

Skal játa að ég hef hugsað mér að láta "afgreiða" mig utan kirkju og vígðra reita þegar þar að kemur - en þetta er auðvitað rétt, það er fyrir þá sem eftir lifa og skiptir mig engu.

Og það er ekkert vandamál fyrir mig að mæta í kirkju og virða þannig trú þeirra sem athöfnin snýst um - ég sleppi einfaldlega að taka þátt í bænum.

Valgarður Guðjónsson, 21.11.2009 kl. 13:47

6 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Kristinn,

þetta er sennilega munurinn á að

  1. trúa því að guð sé ekki til
  2. trúa því ekki að guð sé til
Mér heyrist að flestir þeirra trúlausu sem ég þekki falli í seinni flokkinn, telji kannski stjarnfræðilega litlar líkur á því, en þetta er ekki trúaratriði, heldur byggt á að engar upplýsingar liggja fyrir.

Valgarður Guðjónsson, 21.11.2009 kl. 13:53

7 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Þessi taktík trúaðra að reyna að snúa því upp á trúlausa að þeir séu trúaðir, er eins barnalegur útúrsnúningur og hugsast getur. Ég nenni varla að eyða orðum á það. Þetta er svona algerlega í anda Georgs Bjarnfreðarsonar, sem segir alltaf " Já þú! Já þú ert bjáni! þegar hann er kallaður bjáni.

Annars er trúleysi mitt einfalt í raun. Ég set þá kröfu eins og Ari litli í Aravísunum að fólk segi satt. Það eru prestar ekki að gera og það algerlega meðvitað.  Restin er barnalegur þykistuleikur og liggaliggalá, semfullorðið fólk gæti aldrei orðað sig við ef það væri ekki skilyrt til þess frá barnæsku.

Trúarbrögð eru ljótur leikur.

Jón Steinar Ragnarsson, 24.11.2009 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband