Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

Að sitja heima á kjördag

er undarleg afstaða til einstaks tækifæris í Íslandssögunni til að gera loksins okkar eigin stjórnarskrá.

En það þýðir sennilega ekkert að skammast hér, þeir sem ekki hafa áhuga eru varla að lesa bloggfærslur um kosningarnar.

En kannski er það allt í lagi, þeir sem eru áhuga- og/eða skoðanalausir gera kannski best að sitja heima.


Ríki og kirkja

Nú virðist nokkuð almennur vilji fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju hjá frambjóðendur til stjórnlagaþings, svo og hjá kjósendum, amk. ef marka má skoðanakannanir.

Fyrir mér er þetta sjálfgefin afleiðing af jafnrétti trúar- og lífsskoðana.

Þetta stafar ekki af neinum illvilja til kirkjunnar eða hennar þjóna, þar starfar fullt af heiðarlega og góðu fólki og sinnir sínu fólk vel. Og allt í góðu með það mín vegna.

Þetta er hins vegar ekki fyrir mig og það skiptir mig miklu að búa við jafnrétti að þessu leyti.

Helstu rökin gegn aðskilnaði eru að hann verði óhemju dýr vegna þess að ríkið hafi tekið yfir eignir kirkjunnar gegn "framfærsluskyldu".

Fyrir það fyrsta þá virðist ekki nokkur leið að fá einu sinni grófa hugmynd um verðmæti þessara eigna. Nokkkrir prestar hafa haldið því fram að verðmætið sé nálægt 17 billjónum króna. Ekki veit ég á hverju það er byggt enda fást engar skýringar. Þar fyrir utan virðist ekki á hreinu hvernig kirkjan eignaðist margar þessara eigna.

En þetta er ekki peningaspurnsmál. Ef í ljós kemur að þetta er dýrt og eignirnar eru mikils virði þá er bara að kyngja því. Þetta er eitthvað sem má alltaf leysa, gæti tekið tíma, og sjálfsagt að vinna að því í sátt við kirkjuna að ná samkomulagi og gefa aðlögunartíma.

Fyrsta skrefið er að vita hvert á að stefna. Svo er það einfaldlega verkefni að finna út hvernig.


Er stjórnlagaþing ekki rétt leið?

Sú gagnrýni heyrist oft að það sé hlutverk Alþingis að breyta stjórnarskránni og það hess vegna sé stjórnlagaþing ekki rétt leið.

Þarna er auðvitað verið að rugla saman tveimur atriðum, annars vegar vinnunni við að skrifa nýja stjórnarskrá eða vinna tillögur að breytingum og hins vegar samþykktarferlinu.

Alþingi þarf að samþykkja breytingarnar og gerir (vonandi) á endanum í því ferli sem nú er í gangi.

Alþingi getur hins vegar kallað eftir ráðgjöf við að vinna tillögurnar eins og oft hefur verið gert áður.


Að vinna nýja stjórnarskrá

Einn þáttur liggur oft á milli hluta þegar vinna við nýja stjórnarskrá er til umræðu og það er hverjir veljast á stjórnlagaþingið.

Það skiptir nefnilega ekki bara máli hvaða stefnumál frambjóðandi hefur heldur líka að hann geti tekið þátt í vinnu eins og endurskrift stjórnarskrárinnar er.

Nú er ekki hugmyndin að setja mig á háan hest, (ekki mjög að minnsta kosti) en ein af ástæðunum fyrir að ég tel mig eiga erindi á stjórnlagaþing er að ég þykist eiga gott með að vinna úr upplýsingum og hugmyndum, greina aðalatriði frá aukaatriðum, greina markmið frá leiðum og taka rökum þegar nýjar og betri upplýsingar, ný rök eða önnur nálgun kemur fram.

Ég hef vissulega ákveðnar skoðanir á mörgum þáttum í nýrri stjórnarskrá. En ég er tilbúinn að hlusta.

Ég hef til dæmis lengi talað fyrir jöfnu vægi atkvæða og að landið verið eitt kjördæmi. Markmiðið, og það sem skiptir mig máli, er jöfnun atkvæðisréttar. Það að hafa landið eitt kjördæmi er auðvitað ein leið til að ná því markmiði. En það er ekki eina leiðin og ég hallast að því að jafn atkvæðisréttur eigi að vera skilgreindur í stjórnarskrá. En leiðin að þessu markmiði má einfaldlega vera í lögum.


Hræðslan við nýja stjórnarskrá

Ég átta mig ekki alveg á hvað veldur þeirri hræðslu sem virðist grípa um sig vegna þess að hér verði skrifuð ný stjórnarskrá.

Endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur verið í gangi hjá hinum og þessum nefndum nánast frá stofnun lýðveldisins. Oftast, ef ekki alltaf, hjá þingnefndum sem litlu hafa komið í verk. Undantekningar hafa þó verið bættur mannréttindakafli og breytt kosningakerfi.

En ef það er algjör óþarfi að breyta stjórnarskránni, hvers vegna hafa allar þessar stjórnarskránefndir verið í gangi allan þennan tíma?

Getur óttinn stafað af því að einhverju leyti að nú verði loksins einhverju komið í verk? Er um einhvers konar verkfælni að ræða? Eða liggur þetta í því að aðrir en þingmenn eigi að fá að komast með puttana í verkið? Jafnvel þó að þingið fari nú höndum um tillögurnar á endanum.

Og þegar helstu mótrökin byggjast á misskilningi, rangfærslum, útúrsnúningum og jafnvel aulahúmor - þá sýnist mér nokkuð rík ástæða til að láta hendur standa fram úr ermum.


Þarf nýja stjórnarskrá?

Já.

Ekki endilega vegna þess að hér hafi orðið hrun. Ég hef talað um í nær 25 ár aö það séu einfaldlega allt of margir gallar, bæði tæknilegir og hvað varðar innihaldi.

Mannréttindaákvæðin hafa verið bætt á þessum tíma, sem er gott, en ég held að það megi gera enn betur.

Algeng rökin gegn nýrri og/eða breyttri stjórnarkrá eru annars vegar að kostnaðurinn við verkið sé of hár og hins vegar að mun brýnni verkefni þoli ekki bið.

Þetta eru auðvitað gildar athugasemdir. En fyrir mitt leyti vegur þyngra að kostnaðurinn er í sjálfu sér ekki það mikill í stóru samhengi og við erum nú einu sinni vel á fjórða hundrað þúsund og eigum alveg að ráða við nokkur verkefni í einu.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband