Að skrifa stjórnarskrá

Áður en hafist verður handa við að gera nýja stjórnarskrá er kannski óvitlaust að staldra við og ákveða hvernig hún á að vera. Hvernig er ljóst að verkinu er lokið? Hvað þarf stjórnarskrá að innihalda, hvað á ekki að vera í stjórnarskrá og hvaða kröfur eru gerðar til hvernig hún er skrifuð?

Svo ég setji nú nokkur atriði fram, þó ekki sé nema til að fá umræðu.

Hlutverk stjórnarskrár er tvíþætt, að skýra stjórnskipun annars vegar og vera rammi fyrir almenna löggjöf hins vegar. Hún þarf því að vera heilsteypt og skýra alla þætti stjórnskipunar.

Aðalatriði

Það á ekki að fara út í smáatriði í stjórnarskránni.  Í stjórnarskrá Íslands segir til dæmis „Forsetaefni skal hafa meðmæli minnst 1500 kosningarbærra manna og mest 3000“. Þarna nægir að segja að þetta sé ákveðið í lögum.

Óháð tíma og aðstæðum

Það eiga ekki að vera atriði í stjórnarskrá sem háð eru tímabundnum aðstæðum. Ákvæðið um fjölda meðmælanda forsetaefnis mætti til dæmis vera hlutfall kjósenda á kjörskrá frekar en föst tala. Eða ákveðið í lögum svo ekki sé verið að fara út í smáatriði.

Samræmi

Það eiga ekki vera tilvísanir út í bláinn. Í stjórnarskrá Íslands er til dæmis vísað á tveimur stöðum í „Landsdóm“ (14. grein og 29. grein) sem hins vegar er hvergi skýrt hvað er.

Það má ekki vísa í eitthvað sem hugsanlega verður ekki til staðar. Í stjórnarskrá Íslands er til dæmis sagt Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands“. Hvað ef háskólinn er lagður niður, skipt upp og/eða nafni hans er breytt? Þá er stjórnarskráin allt í einu ógild.

Merking

Það eiga ekki að vera tilgangslausar eða marklausar greinar. Í stjórnarskrá Íslands er mjög víða sagt að breyta megi greinum hennar með lögum, til dæmis Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.“ Sama gildir um fyrri grein um gjöld þeirra sem standa utan trúfélaga og reyndi einmitt á þetta á síðasta ári. Til hvers að setja eitthvað í stjórnarskrá ef það má breyta með lögum. Er ekki miklu hreinlegra að segja einfaldlega að það sé ákveðið með lögum. Eða enn betra, sleppa alveg.

Hnitmiðuð

Í stjórnarskrá ætti ekki að vera almennt spjall, endurtekningar eða óþarfa mas. Í stjórnarskrá Íslands segir Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis“ og síðan „Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna“. Auðvitað er þetta vel meint en það er óþarfi að staglast á hlutum í stjórnarskrá, það er miklu hreinlegra að vanda orðalagið. Sama gildir um ákvæði um að ekki megi leggja á skatt nema með lögum, það er til dæmis tekið fram bæði í 40. grein og 77. grein.

Raunhæf

Það eiga ekki að vera greinar sem hugsanlegt er að ekki verði hægt að uppfylla.

Ótvíræð

Stjórnarskráin á að vera skiljanleg og alls ekki háð því að nauðsynlegt sé að túlka innihald hennar. Í stjórnarskrá Íslands er ákvæði um neitunarvald forseta til að undirrita lög sem deilt var um hvort hann hefði á þeim forsendum að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt.

Fullgild

Tilvísanir eiga ekki að vera í hring eða vísa hver í aðra eða. Í stjórnarskrá Íslands segir til dæmis „Forsetinn lætur ráðherra framkvæma vald sitt“ og „Forsetinn skipar ráðherra“ og má skilja þannig að ráðherra skipi ráðherra.

Skorinorð

Orðalag á ekki að vera vanhugsað eða klaufalegt. Í stjórnarskrá Íslands segir til dæmis um forsetann „Hann náðar menn og veitir almenna uppgjöf saka“. Það mætti með minni háttar vilja til útúrsnúnings alveg skilja þetta þannig að stjórnarskráin skyldi forsetann til að náða alla menn og veta uppgjöf saka.

Stjórnarskráin á að vera skýr. Í stjórnarskrá Íslands segir til dæmis Embættismaður hver skal vinna eið eða drengskaparheit að stjórnarskránni“. Má ekki vera skýrt hvort er?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristinn Pétursson

Ég er sammála um að halda stjórnlagaþing - en fyrst þetta:

Það sárvantar að efla virðingu fyrir núverandi stjórnarskrá - grunngildum samfélagsins.  Það þarf tæplega nein "ný grunngildi"...

Grunngildi stjórnarskrár lýðveldisins eru mjög góð - en virðingin fyrir stjórnarskrána - vantar.

Dæmi um þetta er endurtekin vanvirðing við fjármálaákvæði stjórnarskrár - og orsökin tel ég vera verðbólga.  Verðtrygging var sett á - í staða þess að virða að fullu fjármálaákvæði stjórnarskrár 41. og 41. gr.

Icesave málið - tónlistarhúsið o.fl. sukk samrýmist ekki nefndum fjármálaákvæðum stjórnarskrár að mínu mati..... ekki er einu sinni búið að heimila vaxtakostnaðinn í fyrra á Icesave klafanum.... þó fjármálaráðherra hafi fengið lög samþykkt um skuldbindinguna á árinu 2009 - þá er ekki stafkrókur um Icesave málið á fjárlögum....... og ekkert í ríkisbókhaldinu...

Svona vinnubrögð - eru ekkert annað en ávísun á óðaverðbólgu - þegar kemur að gjalddögum á þessu Icesave sukki... sem vonandi verður aldrei...

Svo eru það ákvæði um atvinnufrelsi og jafnræði - sem hafa verið margbrotin í lögum um svokallaða "stjórn fiskveiða"... eða öllu heldur óstjórn fiskveiða.... sem hefur valdið þvílíkum skaða hérlendis í raun - að það er skelfilegt...

Ok - lögum stjórnarskrána - en ekki núna...

Fyrst skulum við taka slaginn um að virða stjórnarskrána þegar áfangar hafa náðst í því....

þá skulum við halda stjórnlagaþing. 

Nú máttu svo endilega taka þátt í baráttu - um að virða stjórnarskrána....

Kristinn Pétursson, 10.3.2010 kl. 02:31

2 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Það þarf að fara í þessa vinnu en einsog ástandið er núna á þinginu virðist ómögulegt að komast áfram með neitt. Sjálfstæðismenn sem hafa þrátt fyrir allt sterka stöðu hafa aldrei mér vitanlega lýst því yfir að þa sé neitt athugavert við stjórnarskrána einsog hún er. Þeir hafa á löngumtímabilum átt formann stjórnarskrárnefndar en ósköp lítið verið hreyft við málum, t.d. ekki stundað augljósa ritstjórn einsog Valgarður bendir á þegar farið er í smáatriði sem tilheyra almennri löggjöf á hverjum tíma. - Bara umsóknin um aðildarviðræður að ES með tilheyrandi þjóðaratkvæðagreiðslu krefst breytinga á stjórnarskrá. Vegna hatrammrar andstöðu bæði til hægri og vinstri gæti þetta orðið jafn tilfinninga þrúngið mál og yfirstandandi deila við hollendinga og breta.

Gísli Ingvarsson, 10.3.2010 kl. 09:19

3 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Auðvitað rétt Kristinn að stjórnarskrá er tilgangslaus ef hún er virt að vettugi, en ég velti fyrir mér hvort þetta virðingarleysi sé að einhverju leyti afleiðing af því hversu illa hún er unnin...

Valgarður Guðjónsson, 10.3.2010 kl. 11:57

4 Smámynd: Valgarður Guðjónsson

Gísli, já, það virðist sem verið sé að svæfa og þynna stjórnlagaþingið út í ekki neitt. Kannski (og reyndar mjög líklega) er eina ráðið að færa þetta verkefni frá þinginu..

Valgarður Guðjónsson, 10.3.2010 kl. 11:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband