Nú bloggum við andlegu fiskarnir...

Ég hef dottið inn á nokkuð margar færslur með löngum athugasemdaþráðum um trúmál og trúleysi – og umræðu sem tekur oftar en ekki á sig sömu mynd, aftur og aftur.

Í sumum tilfellunum grunar mig að verið sé vísvitandi að höfða til trúlausra, því settar eru fram rangfærslur og fullyrðingar út í loftið sem standast enga skoðun, að því er virðist til þess eins að kalla fram viðbrögð. Enda eiga færslurnar og athugasemdirnar það sameiginlegt að ekki er gaman fyrir okkur trúlausa að sitja þegjandi undir þeim. Ef við svörum ekki þá standa ummælin án athugasemda. Ef við svörum hins vegar fáum við skæðadrífinu yfir okkur að við séum viðkvæmir, öfgafullir og ég veit ekki hvað.

Í einu tilfellinu skrifaði prestur undir dulnefni og reyndi líka að breiða yfir starf sitt hjá ríkinu með því að skrifa eins og "almennur" áhugamaður. Og ég hef sterkan grun um að það eigi við fleiri af nafnlausu „athugasemdurunum“. Það er amk. ótrúlegt að nokkur, sem ekki á beinna hagsmuna að gæta í því að gera trúlausa tortryggilega, standi í svona stöðugum og vísvitandi rangfærslum. Enda engin ástæða til að skrifa í skjóli nafnleyndar ef um heiðarlegar skoðanir er að ræða.

Auðvitað er ég ekki að alhæfa um allar umræður um trúmál, það er gaman og fróðlegt að rökræða við suma og fram koma áhugaverðar skoðanir, þó ég taki nú undir fæstar.

Það sem truflar mig kannski mest er ákveðið yfirlæti sumra þeirra sem telja sig trúaða. Að þeir séu svo sterkir á andlega sviðinu, hugsi á svo miklu æðri nótum, nýti skynfærin jafnvel betur og svari stærri spurningum en við trúlausir getum svarað.

Aftur vil ég ekki alhæfa, en óneitanlega er í langflestum tilfellum um barnalegar og/eða einfeldningslegar hugmyndir að ræða, sömu örfáu hugmyndirnar koma fyrir aftur og aftur í örlítið breyttum búningi. Og það sem verra er, þær eru í frekar lítils virði, og oftar en ekki eru þetta þokukenndar kenningar um eitthvað sem viðkomandi getur varla sjálf(ur) skilgreint eða sett skiljanlega fram. Það er nánast óþekkt að frumleg eða merkileg hugsun komi fram.

En alltaf fylgir þetta, „við erum svo andlega stórir að þið þessir trúlausu efnishyggjumenn skiljið okkur ekki“. Þvæla. Ég get alveg skilið á milli hvað er jarðbundið og sannanlegt og hvar skemmtilegar og áhugaverðar hugmyndir koma fram. En hugmynd verður ekki sjálfkrafa merkileg eða innihaldsrík við það eitt að vera loftkennd og illskiljanleg.

Þess vegna truflar það mig þegar þeir setja sig á andlega háan hest þegar innistæðan er engin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Valgarður; sem oftar !

Tek undir; með þér - og; þó ég hangi enn, í Þjóðkirkjunni, af gömlum vana, finnst mér Edda; Snorra frænda míns Sturlusonar, og frásaga hennar, af tilurð Heimsins, mun áhugaverðari aflestrar, en Biflían gamalgróna, svona; í alvöru talað.

Með beztu kveðjum; sem áður /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 10.12.2009 kl. 01:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband