Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Stjórnarskráin

Ég var að heyra að ekki þætti rétt að kjósa strax til stjórnlagaþings þar sem ekki sé rétt að hrófla við stjórnarskránni nema að vel ígrunduðu máli.

Stjórnlagaþinginu er reyndar ætlað að ígrunda málið vel, þannig að þau rök halda varla.

Og ekki er stjórnarskráin sem við höfum í dag merki þess að vel ríflega hálfrar aldar ígrundun skili góðu skjali.

Ég var nefnilega að velta fyrir mér hvaða ákvæði kosningalaga væru bundin í stjórnarskránni og hver ekki þegar mér datt í hug að finna stjórnarskrána og lesa. Ég fann hana á http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/1944033.html og vonandi er það rétt útgáfa. Eða nei annars, ég vona innilega að það sé ekki rétt útgáfa.

Ég hafði á sínum tíma þá mynd af stjórnarskráin að hún væri nokkurs konar grunnur eða rammi fyrir önnur lög og stjórnsýslu. Eitthvað sem skilgreindi algjör grundvallaratriði og mætti bókstaflega meitla í stein, því varla væri ástæða til að breyta nokkru sem í henni stæði.

Það fyrsta sem ég rak augun í var tilvísun í „Landsdóm“ sem hvergi er skilgreindur frekar eða útskýrður.

Ekki get ég heldur skilið hvers vegna óteljandi smáatriði við forsetakosningar eru bundin í stjórnarskrá, td. hámarks- og lágmarksfjöldi meðmælenda frambjóðanda. Má þetta ekki vera hlutfall kjósenda, eða einfaldlega sett með lögum? Enda stendur rétt á eftir að það skuli að öðru leyti ákveða um framboð og kjör forseta með lögum.

Síðan koma margar greinar um hlutverk forseta. Sem mér skilst að séu svo túlkaðar þannig að ein þeirra - þess efnis að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt - þýði að nánast alltaf þegar talað er um forseta sé í rauninni átt við ráðherra. Hefur engum dottið í hug í tæp 65 ár að breyta textanum einfaldlega í „ráðherra“ þar sem við á?

Ekki einfaldast þessar vangaveltur þegar greinin „Forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn“ er lesin. Túlkast þetta þá þannig „Ráðherra skipar ráðherra“? Er þá aldrei hægt að byrja? Í upphafi er jú enginn ráðherra til að skipa þann fyrsta? Eða get ég skipað mig ráðherra í skjóli þess að ég er orðinn ráðherra eftir að ég skipaði mig?

Það næsta sem ég rak augun í er grein þar sem vísað er í Háskóla Íslands. Í stjórnarskránni. Hvað ef hann leggst af? Skiptir um nafn?

Þeirri grein fylgir svo reyndar að þessu megi breyta með lögum.

Og þar er ég kominn að því sem sennilega truflar mig mest. Í stjórnarskránni er aftur og aftur kveðið á um eitthvað og svo jafnharðan dregið til baka með því að segja að því megi breyta með lögum. Hvers vegna í ósköpunum er verið að eyða ákvæðum í stjórnarskrá í atriði sem eru svo réttlægri en lagaákvæði?

Og sumar greinar segja einfaldlega að eitthvað skuli ákveðið með lögum? Eiginlega hálf tilgangslaust að taka það fram.

Meira.

Það eru nokkur atriði að trufla mig einfaldlega vegna þess að þau eru ekkert sérstaklega skýr

·         tilvísun í „gott siðferð“ sem ég er amk. ekki viss um að allir séu sammála um hvernig á að túlka

·         ritskoðun sem aldrei má setja, en má svo samt setja í frekar óljósum tilgangi

·         eignarréttur er friðhelgur, nema, nema og nema

·         atvinnufrelsi er tryggt, en má samt setja skorður

·         það má banna fundi undir berum himni á óljósum forsendum og ekki tilgreint hver hefur vald til þess

Og... allir skulu vera jafnir án tillit til kynferðis og fleiri atriða. Og svo er tekið fram að konur og karlar skuli njóta jafnréttis. Ekki hef ég neitt að athuga við að ákvæði um jafnrétti séu skýr, nema síður sé, en svona tvítekning virkar meira eins og spjall eða ómarkvissar hugsanir upphátt, frekar en skýr og skorinorð stjórnarskrá.

Til að klára nú að nefna dæmi um atriði sem trufluðu mig, við þennan fyrsta lestur, þá er uppsetningin eins og hún birtist á vefnum hálf ruglingsleg. Ég skil ekki hvaða tilgangi opnir kassar á undan sumum málsgreinu þjóna. Þaðan af síður átta ég mig á hvaða erindi hornklofar [] eiga utan um setningar að því er virðist af handahófi. Og nokkrir punktar í röð þýða yfirleitt í mínum huga eitthvað til að hugsa frekar um...

Já, og kosningalögin sjálf, sem var nú upphaflega ástæðan fyrir að ég fór af stað, kosta eiginlega sérstaka færslu...


Opnað fyrir persónukjör

Get ekki annað en fagnað því að breyta eigi kosningalögunum þannig að opnað verði fyrir persónukjör.

En það skiptir miklu máli hvernig þetta er gert og ég sakna þess að fá ekki aðeins nánari upplýsingar um hvernig þetta er hugsað.

Helst heyrist mér eitthvert afbrigði af þýsku leiðinni koma til greina, þeas. fyrst og fremst listakosning en kjósandi geti valið um fáa frambjóðendur sérstaklega í nokkurs konar einmenningskjördæmum.

Stærðin á einmenningskjördæmunum er uþb. 180.000 atkvæði - við Alþingiskosningarnar 2007 voru 220.000 á kjörskrá hér, kannski nægir okkur eitt kjördæmi eftir allt.

En burséð frá því þá er þetta auðvitað einfalt og talning atkvæða að sama skapi einföld.

Möguleikar kjósenda eru hins vegar mjög takmarkaðir. 

Ég myndi gjarnan vilja sjá opnari kosningu þannig að hreyfingar geti boðið fram lista, og fái reyndar að raða á listann, sem nokkurs konar tillögu að röð frambjóðenda. Það sé hins vegar alfarið kjósenda að raða einstaklingum í kosningum. 

Þetta má svo gera á tvo vegu. Annars vegar að kjósandi fái að kjósa ákveðinn lista og hins vegar að kjósandi megi raða frambjóðendum allra lista án tillits til þess hvaða lista hann kýs. Sá kjósandi sem aðeins kýs lista er hlutlaus þegar kemur að úthlutun sæta til ákveðinna eintaklinga. Kjósandi getur notað sé annan möguleikann eða báða.

Fjöldi atkvæða sem listi fær segir til um þingsæti sem viðkomandi listi fær úthlutað. Þeim þingsætum er svo skipt milli einstakra frambjóðenda eftir því hvernig kjósendur röðuðu þeim.

Hins vegar má hugsa sér að kjósendur kjósi eingöngu einstaklinga með því að raða þeim hvort sem er á einum lista eða þvert á lista. Þingsæti hvers lista ræðst þannig eingöngu af styrk frambjóðenda hans í þessari röðun.

Svo ég svari nú strax gagnrýni sem ég hef heyrt.

  1. Nei, það er ekki flókið að telja, við höfum haft aðgang að tölvum til að vinna svona verk í nokkuð langan tíma.
  2. Jú, það er rétt að frambjóðendur lista eru líka í innbyrðis keppni ("prófkjörsbaráttu") samhliða annarri kosningabaráttu. En réttur kjósanda til að ákveða hvaða fulltrúa hann vill á þing hlýtur alltaf að vera meira.
  3. Fólk hefur ekki áhuga á að setja sig nægilega vel inn í málin til að kjósa einstaklinga. Má vera, en þetta er réttur til þeirra sem vilja, ekki skylda, sérstaklega ekki ef boðið er upp á að kjósa lista.
  4. Kjósendur eins lista geta unnið "skemmdarverk" á listum annars lista. Nei, í rauninni ekki, listar þurfa auðvitað að vanda val frambjóðenda á sína lista og ef það er í lagi þá geta kjósendur annarra lista ekkert skemmt. Kjósendur bera auðvitað ábyrgð á því hverja þeir kjósa inn á þing og það er auðvitað fráleit hugsun að það verði í miklum mæli þannig að kjósendur velji frambjóðendur sem þeir vilja ekki sjá á þingi. 

 

 


mbl.is Opnað fyrir persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nánar um stjórnlagaþingið

Sáttur við að sjá hugmyndir um rétt fólks til þjóðaratkvæðagreiðslu, þjóðaratkvæðagreiðslur um stjórnarskrárbreytingar, stjórnlagaþing, kosningalögum breytt og persónukjör.

En ég saknaði að heyra hvernig á að koma þessu í framkvæmd. Er ekki stjórnlagaþing aðferðin við að ná öllum hinum atriðunum í gegn?

Auðvitað kostur að lagfæra það sem hægt er í kosningalögunum sem fyrst.

En aðalatriðið er að koma þessu í verk og fá "hlutlausa" aðila til að vinna verkið, þeas. ekki þingmennina sjálfa.

Vil sérstaklega benda á umræður hjá Lýðveldisbyltingunni.


mbl.is Slá skjaldborg um heimilin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing

Eru hugmyndir um að kjósa til stjórnlagaþings samhliða næstu kosningum að gleymast?

Er svo sem búinn að vera að tuða um þetta af og til í meira en tuttugu ár og ekki hefur verið hlustað á mig, frekar en aðra, og ætti ekki að koma á óvart þó þetta sofni.

Mér heyrist að stefnt hafi verið á 63 manna þing, hefði haldið að 10-12 væru nóg en skiptir ekki öllu svo framarlega sem ég kemst að..

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband