Stjórnarskráin
17.2.2009 | 11:23
Ég var að heyra að ekki þætti rétt að kjósa strax til stjórnlagaþings þar sem ekki sé rétt að hrófla við stjórnarskránni nema að vel ígrunduðu máli.
Stjórnlagaþinginu er reyndar ætlað að ígrunda málið vel, þannig að þau rök halda varla.
Og ekki er stjórnarskráin sem við höfum í dag merki þess að vel ríflega hálfrar aldar ígrundun skili góðu skjali.
Ég var nefnilega að velta fyrir mér hvaða ákvæði kosningalaga væru bundin í stjórnarskránni og hver ekki þegar mér datt í hug að finna stjórnarskrána og lesa. Ég fann hana á http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/1944033.html og vonandi er það rétt útgáfa. Eða nei annars, ég vona innilega að það sé ekki rétt útgáfa.
Ég hafði á sínum tíma þá mynd af stjórnarskráin að hún væri nokkurs konar grunnur eða rammi fyrir önnur lög og stjórnsýslu. Eitthvað sem skilgreindi algjör grundvallaratriði og mætti bókstaflega meitla í stein, því varla væri ástæða til að breyta nokkru sem í henni stæði.
Það fyrsta sem ég rak augun í var tilvísun í Landsdóm sem hvergi er skilgreindur frekar eða útskýrður.
Ekki get ég heldur skilið hvers vegna óteljandi smáatriði við forsetakosningar eru bundin í stjórnarskrá, td. hámarks- og lágmarksfjöldi meðmælenda frambjóðanda. Má þetta ekki vera hlutfall kjósenda, eða einfaldlega sett með lögum? Enda stendur rétt á eftir að það skuli að öðru leyti ákveða um framboð og kjör forseta með lögum.
Síðan koma margar greinar um hlutverk forseta. Sem mér skilst að séu svo túlkaðar þannig að ein þeirra - þess efnis að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt - þýði að nánast alltaf þegar talað er um forseta sé í rauninni átt við ráðherra. Hefur engum dottið í hug í tæp 65 ár að breyta textanum einfaldlega í ráðherra þar sem við á?
Ekki einfaldast þessar vangaveltur þegar greinin Forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn er lesin. Túlkast þetta þá þannig Ráðherra skipar ráðherra? Er þá aldrei hægt að byrja? Í upphafi er jú enginn ráðherra til að skipa þann fyrsta? Eða get ég skipað mig ráðherra í skjóli þess að ég er orðinn ráðherra eftir að ég skipaði mig?
Það næsta sem ég rak augun í er grein þar sem vísað er í Háskóla Íslands. Í stjórnarskránni. Hvað ef hann leggst af? Skiptir um nafn?
Þeirri grein fylgir svo reyndar að þessu megi breyta með lögum.
Og þar er ég kominn að því sem sennilega truflar mig mest. Í stjórnarskránni er aftur og aftur kveðið á um eitthvað og svo jafnharðan dregið til baka með því að segja að því megi breyta með lögum. Hvers vegna í ósköpunum er verið að eyða ákvæðum í stjórnarskrá í atriði sem eru svo réttlægri en lagaákvæði?
Og sumar greinar segja einfaldlega að eitthvað skuli ákveðið með lögum? Eiginlega hálf tilgangslaust að taka það fram.
Meira.
Það eru nokkur atriði að trufla mig einfaldlega vegna þess að þau eru ekkert sérstaklega skýr
· tilvísun í gott siðferð sem ég er amk. ekki viss um að allir séu sammála um hvernig á að túlka
· ritskoðun sem aldrei má setja, en má svo samt setja í frekar óljósum tilgangi
· eignarréttur er friðhelgur, nema, nema og nema
· atvinnufrelsi er tryggt, en má samt setja skorður
· það má banna fundi undir berum himni á óljósum forsendum og ekki tilgreint hver hefur vald til þess
Og... allir skulu vera jafnir án tillit til kynferðis og fleiri atriða. Og svo er tekið fram að konur og karlar skuli njóta jafnréttis. Ekki hef ég neitt að athuga við að ákvæði um jafnrétti séu skýr, nema síður sé, en svona tvítekning virkar meira eins og spjall eða ómarkvissar hugsanir upphátt, frekar en skýr og skorinorð stjórnarskrá.
Til að klára nú að nefna dæmi um atriði sem trufluðu mig, við þennan fyrsta lestur, þá er uppsetningin eins og hún birtist á vefnum hálf ruglingsleg. Ég skil ekki hvaða tilgangi opnir kassar á undan sumum málsgreinu þjóna. Þaðan af síður átta ég mig á hvaða erindi hornklofar [] eiga utan um setningar að því er virðist af handahófi. Og nokkrir punktar í röð þýða yfirleitt í mínum huga eitthvað til að hugsa frekar um...
Já, og kosningalögin sjálf, sem var nú upphaflega ástæðan fyrir að ég fór af stað, kosta eiginlega sérstaka færslu...
Athugasemdir
Reyndar held ég að þessi sé miku betri:
http://www.house.gov/house/Constitution/Constitution.html
Vonandi er hægt að laga þá íslensku en vandamálið er að ég treysti eiginlega engum til þess :)
Þorsteinn Sverrisson, 17.2.2009 kl. 18:20
AMK finnst mér hættulegt að stjórnvöld fari að hræra í stjórnarskránni núna um leið og Ríkið er að eignast öll stærstu fyrirtækin. Þú veist þegar ráðamenn byrja að finna lyktina af valdinu!!!! Sjáðu hvað var að gerast í Venezuela.
Þorsteinn Sverrisson, 17.2.2009 kl. 18:24
Ein örugasta vísbendngin um að fólk HAFI EKKI lesið bandarísku stjórnarskránna er að tefla henni fram með þeim hætti sem þú gerir hér þorsteinn.
Hinsvegar eru margir kanar og aðrir undir svo sterkum áhrifum heilþvottarvélar Hollywood að þeir trúa tuggunni um BNA drauminn og fullkolmustu stjórnarskrá í heimi (USA).
Íslenska stjórnarskráin kann að vera ófullkomin en hún hefur þó sitt hvað fram yfir þá Bandarísku og sú Bandaríska sitthvað fram yfir þá Íslensku
Sævar Finnbogason, 18.2.2009 kl. 18:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.