Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Að skilgreina sannleikann...

Ég datt um daginn um færslu frá Þórhalli Heimissyni þar sem tvö atriði vöktu athygli mína.

Annars vegar kvartaði Þórhallur yfir að hellt væri yfir sig af hatursmönnum kristninnar en þeir þyrðu ekki að skrifa hjá honum. Þar sem ég hafði heyrt að hann hafnaði einmitt athugasemdum frá nokkuð mörgum spurðist ég fyrir, hann svaraði að það væru aðeins þrír sem hann leyfði ekki að gera athugasemdir vegna þess hvernig þeir hefðu skrifað hjá honum, en skýrði svo sem ekki nánar.

Á hinn bóginn fór ég að hugsa eftir að lesa eftirfarandi setningu:

Þökk þeim sem lásum með OPNUM huga og FORDÓMALAUST í leit að SANNLEIKANUM með þeim skilningarvitum sem GUÐ gaf þeim.

Við höfum svo ásamt „Ólafi í Hvarfi“ verið að skiptast á hugmyndum um hvernig menn nálgast hvað er sannleikur og hvað ekki.

Í rauninni nokkuð áhugaverður vangaveltur og hafa verið á rólegu nótunum þrátt fyrir ólikar skoðanir.

Hins vegar gengur mér illa að koma athugasemdum að, líkast til einhver villa í „blogg“ umsjónarkerfinu, því Þórhallur hefur birt þær ef ég hef sent aftur og því engin ástæða til að ætla að hann vilji ekki birta þær. Engu að síður er þreytandi að gera athugasemdir sem detta út, þráðurinn verður frekar ruglingslegur.

Þannig að ég ætla að bjóða þeim að halda hér áfram ef þeir hafa áhuga þannig að þetta geti gengið liprar fyrir sig - og læt athugasemdir hingað til fylgja (að mestu).  Ég vona að samantektin sé hlutlaus og skýr, ef ekki má sjá nánar á http://thorhallurheimisson.blog.is/blog/thorhallurheimisson/entry/983515/ og eins er sjálfsagt að leiðrétta ef eitthvað vantar.

Valgarður:

En ef ég má aðeins forvitnast hvernig þú skilgreinir sannleikann, þeas. hvernig þú metur hvort komin sé niðurstaða?

Ég veit að ég geri mjög stífar "raunvísindakröfur" til hverju ég trúi og hvað ég hef fyrir satt - og er þess vegna trúlaus - ég skil vel að það er ekki allra, en hef sem sagt áhuga á hvernig þeir sem eru raunverulega trúaðir meta þetta.

Þórhallur:

Ef þú ert að spyrja um [færsluna um sannleikann] er ég þar að gagnrýna alla sem telja sig eina hafa á réttu að standa og vilja ekki skoða hlutina nánar út frá öllum sjónarhornum.

Ólafur:

Satt eða sannleikur getur aldrei verið hugmyndafræði, þ.e.a.s að ein hugmynd sé sannleikur og önnur lygi, það gengur ekki upp.  Sannleikur er þegar þú hugsar og talar samkvæmt betri vitund þinni og ósatt eða lygi þegar þú brýtur gegn þinni betri vitund. 

Valgarður:

Ég geri kröfur sem þykja eflaust mjög jarðbundnar og "raunvísindalegar" til að geta talið eitthvað satt. Skilgreining Ólafs gengur td. ekki upp fyrir mig - þeas. að hugsa og tala samkvæmt betri vitund sé alltaf sannleikur - td. þegar félagi minn tilkynnti að kókbílarnir á Akureyri væru grænir, hann er litblindur og talaði samkvæmt bestu vitund, en það var auðvitað ekki satt.

En ég hnaut sem sagt um þetta setningu og fór að velta fyrir mér hvort þetta skýrði að einhverju leyti muninn á trúuðum og trúlausum, þeas. hvernig menn meta hvort þeir hafi fundið, eða nálgast, sannleikann.

Þannig að spurningin er kannski hvernig trúaðir meta hvort og hvenær þeir hafa fundið sannleikann? Eða er spurningin kannski grundvallar misskilningur hjá mér?

Ólafur:

Félagi þinn skynjar að kókbíllinn er grænn og talar því samkvæmt bestu vitund og er því satt.  Hinsvegar ef þú skynjar að kókbíllinn er rauður en segir hann grænan gegn betri vitund ÞINNI, þá er það ósatt samkvæmt minni skilgreiningu.

Ekki satt ?

Valgarður:

Nei.

Þó það sé samkvæmt bestu vitund þá er það einmitt ekki satt - ég hef greinileg hitt á nokkuð gott dæmi.

Á endanum kemur sannleikurinn í ljós sem er að bíllinn er rauður, félaginn skynjaði litinn ranglega og fullyrðingin hans var því ósönn, þó óvart væri (enda kom í ljós að litblinda var ættgengt sem var sannað með prófi).

Munurinn á rauðri og grænni bíla málningu er ekki afstæður eftir skynjun heldur afskaplega skýr og auðprófanlegur.

Þórhallur:

Þetta eru athyglisverðar vangaveltur. Veltur Sannleikurinn á því hvort hægt er að fella hann á rökfræðilegum fínessum eða einhverju öðru?

Það minnir mig á spurningu sem var vinsæl þegar ég var í menntó og gerði grín að slíkum flækjum – [þeas. hvort Guð gæti skapað stein sem væri svo þungur að hann sjálfur gæti ekki lyft honum].

Er spurningin um Sannleikann ekki stærri en þetta?

Er Sannleikurinn ekki sá grundvöllur sem hver maður byggir líf sitt á? Hinstu rök tilverunnar? En ekki skemtileg en innantóm rökþraut menntskælinga?

Og er því ekki réttsýnn og heiðarlegur maður alla ævi að spyrja sjálfan sig út í þessa grundvallarafstöðu sína?

Og hlusta á það sem aðrir segja? Án þess að telja sig einann hafa SANNLEIKANN í hendi SÉR?

Ólafur:

Valgarður þú nálgast dæmið utanfrá og inn, en ég innanfrá og út, líklega skólabókardæmi um epli og appelsínurök.  Valgarður færir efnisleg rök og ég andleg rök fyrir skoðun okkar.

Þekking eða hugmyndafræði er hvorki sannleikur né lygi, þekking eins og hugmyndafræði er hugmynd, oftast almennt viðurkennd en breytingum háð.  Sannleikur og ósannleikur í mínum huga er hluti af andlegum veruleika og er mun nær sekt og sakleysi, það sem gerist í verund þinni.

Valgarður - þessi athugasemd birtist ekki:

Já, það var nú ekki hugmyndin að fara að rökræða hvort rautt væri grænt eða rautt - en skemmtileg nálgun og óvart nokkuð skemmtilegur samanburður - og kannski ekki alveg á sömu nótum og menntaskóla rökfræðin, þó skemmtileg sé á sinn hátt.

Ég er alveg sammála að það er mikils virði að hlusta á aðra og varhugavert að þykjast einn vita sannleikann.

Ég er til að mynda fullkomlega sáttur við að það eitt sé satt og rétt sem hægt er að sanna efnislega - um annað hreinlega veit ég ekki og er líka fullkomlega sáttur við það.

Ef ég má taka dæmið litinn á bílnum lengra þá nægir mér td. ekki að þrír litblindir einstaklingar skynji hann sem grænan ef ég sé rautt (!) heldur myndi ég gera einfalt próf, td. henda mynd af honum í PhotoShop og skoða RGB gildin. Fá þannig afdráttarlaust svar (gott og vel, það eru til áreiðanlegri tæki, en svo hugmyndin sé skiljanleg)...

Upphaflega kveikti ég á þessu í sambandi við leit að sannleikanum um fæðingarfrásagnir, sem ég skildi sem meyfæðinguna, og fór að velta fyrir mér hvernig þið mynduð meta hvort hún væri sönn eða ekki. Fyrir mér er útilokað að segja til um það - og ég skal líka játa að mér finnast líkurnar vægast sagt hverfandi.

En ég er enn forvitinn að vita hvernig þið nálgist þetta..

Þórhallur:

Það má til gamans nefna annað dæmi um Sannleika sem ekki er hægt að skilgreina efnislega eða sanna/afsanna með þrætubók og rökum.

það er ljóðrænan.

Sem dæmi má nefna hina þekktu vísu:

Blessuð sólin elskar allt,

allt með kossi vekur.

Auðvitað er þetta ekki Sannleikur - efnislega. Sólin er helíumhnöttur, dauður, án tilfinninga.

Hún kyssir ekkert en sendir bannvæna geisla út í geiminn.

Samt vita allir Íslendingar að fullyrðing vísunnar er sönn. 

Valgarður:

Ólafur ég er nokkuð mikið ósammála þér - alveg frá því að ég nálgist utan frá, að grænn bíll get verið andleg nálgun og eiginlega fráleitt að sannleikur sé nær sekt / sakleysi hjá mér. Og mér finnst þú rugla saman dómi og sekt, hvort tveggja getur verið sannanlega satt eða ósatt og þarf ekki að tengjast. En látum þetta liggja á milli hluta, ef fyrri færslan mín finnst þá myndi ég gjarnan vilja halda þeim þræði.

Þórhallur, þetta eru auðvitað (ágæt) myndlíking en tengist kannski ekki spurningu um sannleika eða ekki. Ég get alveg notið þess að lesa góðan kveðskap án þess að velta mér upp úr efnislegum staðreyndum. En ég myndi heldur aldrei halda því fram að þær væru efnislegur sannleikur.

Kannski er einmitt mikilvægt að greina þarna á milli.

Þórhallur:

Það er spurningin Valgarður. Felur vísan ekki einmitt í sér Sannleika sem við öll þekkjum? Sannleikann um yndislegt vor eða blíða sumardaga, næstum því áþreifanlega í himinblámanum?

En hinn efnislegi heimur, er hann ekki þvert á móti síbreytilegur? Hver er hinn efnislegi sannleikur? Hver ert þú t.d.? Ert þú sá sami og þú varst fyrir 7 árum? Eða liturinn sem tú talaðir um? Það má greinilega deila um hann?

Aftur á móti eru hin andlegu sannindi sem m.a. ljóðið tjáir óbreytanleg.

Má því ekki segja að þau ein séu raunveruleg en allt annað, t.d. hinn efnislegi sannleikur, blekking og umdeilanleg og breytileg?

Valgarður - þessi athugasemd birtist ekki,  og ég á hana reyndar ekki upphaflega:

Nei, þar er ég ekki sammála, vísan er myndlíking og á ekki mikið skylt við sannleika eða ekki, velti líka fyrir mér hvernig maður sem er að skrælna í eyðimörkinni meti sannleiksgildi vísunnar, en það er önnur saga.

Liturinn er eitthvað sem þarf ekki að deila lengi um, hægt er að fá afdráttarlausa og efnislega niðurstöðu á frekar einfaldan hátt. Skynjun einstaklings breytir engu um hvað er rétt.


Að trúa ekki á trúleysi

Það er kannski ekki á trúar- trúleysisumræður bætandi, en samt..

Ég hef fylgst með nokkrum þráðum um þar sem trúaðir og trúlausir eru að deila og svo sem gott eitt um það að segja.

Það sem truflar mig, trúlausan manninn, er endalaust staglið á borð við "það eru nú allir trúaðir", "þið trúið nú líka", "þið eruð nú mesta ofsatrúarfólkið" og "trúleysi er ekki til".

Þetta er orðið svo vandræðalega hallærislegt að ég fór að velta fyrir mér hvers vegna trúuðum er svona mikið í mun að klína trúarstimplinum á allt og alla.

Að grunni til finnst mér þetta hreinn dónaskapur, þeas. að einhver þykjast vita betur en ég hvort ég trúi eða ekki - þeir sem halda þessu fram eru einfaldlega ekki viðræðuhæfir.

Svipar til og ég væri stanslaust að fullyrða við þá sem trúa, "nei, þú trúir ekki neitt, ég veit þetta betur en þú".

En í framhaldinu fór ég að velta fyrir mér hvað veldur.

Getur virkilega verið að svona margir séu til sem einfaldlega skilja ekki hvað það er að vera trúlaus?

Eða er þetta einhvers konar sjálfhverfa, "ef ég er ekki svona þá getur enginn annar verið svona"?

Eða getur þetta einfaldlega verið einhvers konar minnimáttarkennd. Að þeir sem bregðast svona við finnist eitthvað lítilmótlegt við að játa að trúa - sem mér finnst engin þörf á, svo það sé á hreinu - og sér til varnar þurfi þeir nauðsynlega að koma sama stimpli á alla aðra. Svona - ef ég má taka vont og auðvitað óskylt dæmi í eðli sínu - eitthvað í ætt við að skammast sín fyrir að hafa gaman af að hlusta á Abba en ákveða sér til varnar að allir aðrir hljóti nú að hafa innst inni gaman af Abba. Svona ég er nú ekkert verri en hinir. Sem er auðvitað skondin nálgun því ég er ekkert að gera lítið úr trú þeirra sem hafa sína trú í friði.

PS. Og svo það sé á hreinu, ég þoli ekki Abba, og hef aldrei gert.


Að skjóta sig í fíkniefnavarnarfótinn...

Ég datt fyrir tilviljun inn á þráð eftir Guðrúnu nokkra Sæmundsdóttur um dópáróður á „blogginu“ fyrir nokkrum dögu - ákvað bíða aðeins með að birta þessa athugasemd..

Ég gerði athugasemd við eina röksemdafærsluna hjá henni án þess að fara í nokkru inn á málefnið sjálft. Eftir nokkrar árangurslausar tilraunir til að fá svar kom almenn athugasemd þess efnis að allir sem ekki tækju undir með henni væru talsmenn fíkniefnasala. Ég vildi gefa henni kost á að undanskilja mig frá þessu en hún eyddi færslunni og lokaði á athugasemdir frá mér.

Án þess að fara nánar út í smáatriði þá þoli ég ekki kannabisefni, hef aldrei snert þau, hef séð fólk fara illa af neyslu þeirra (þó ekki marga, svo ég sé nú sanngjarn) og hef td. skömm á þeim sem eru að selja krökkum efnið. Á hinn bóginn held ég að það sé ekki rétt leið að banna þessi efni – einfaldlega eins og svo margt annað sem ég þoli ekki, þá er það ekki mitt að ákveða hvaða heimsku fólk tekur sér fyrir hendur – og ég vil sjá betri rök og almenn viðmið um hvenær eitthvað er bannað og hvenær ekki.

Ástæðan fyrir að ég gerði athugasemdina upphaflega var að mér sýndist Guðrún vera að skrifa í fullri einlægni en að hún áttaði sig ekki á hvernig svona skrif virka. Sú aðferð að skrifa í innihaldslausum fullyrðingum sem ekki eru studdar upplýsingum, upphrópunum, rökleysum og röfli út í bláinn – að ekki sé minnst á skilningsleysi á tjáningarfrelsi og málfrelsi – málar þá mynd af andstæðingum fíkniefna að þeir séu dómsdags [nú dettur mér ekkert orð í hug sem er sterkt, neikvætt og jafnframt nægilega kurteist, þannig ég bið lesendur að stinga hér inn orði að eigin vali].

Og ef þeir sem ekki þekkja til komast að þeirri niðurstöðu að andstæðingar einhvers séu ekki með öllum [enn og aftur vantar kjarnyrtan frasa] þá verður það hugsanlega til að sú ályktun verði ofan á að þeir hafi rangt fyrir sér.

Það hvarflaði að mér að þetta hefði verið með ráðum gert, „bloggarinn“ væri kannski tilbúin persóna og tilgangurinn að eyðileggja málstað þeirra sem eru á móti fíkniefnum. Við nánari skoðun virðist hún þó vera til og færslan kannski skrifuð í góðri trú.

Það breytir því þó ekki að afleiðingarnar af svona bulli verða miklu líklegar þær að fleiri telji allt í lagi að prófa og nota kannabisefni en ef hún hefði haldið sig til hlés, eða amk. reynt að hafa grein sína málefnalega og rökstudda.


Fordómar

Ég fékk þessar spurningar frá Gallup fyrir nokkrum dögum.

Og datt ekki í hug að svara.

Hvernig dettur CG í hug að biðja fólk um að flokka heilar þjóðir jákvætt, hlutlaust eða neikvætt og gefa einkunn?

Það er jafn fráleitt að stimpla fólk eftir þjóðerni eins og að dæma út frá kyni, litarhætti eða trúarbrögðum.

Og sá hugsunarháttur að það sé í lagi að gefa heilu þjóðunum einkunn leggur grunninn að fordómum.


mbl.is Íslendingar jákvæðastir í garð Norðmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott og vel, en samt...

Ég verð að játa að kjánahrollurinn við að heyra lokaorðin á sínum tíma toppaði nánast skelfilegt innihald skilaboðanna að öðru leyti.

En að vissu leyti er ágætt að heyra að þáverandi forsætisráðherra leit á þetta sem innihaldslaust raus, þeas. hann ætlaðist ekki beinlínis til að ósýnilegi ímyndaði guðinn færi að gera sér sérstakt far um að leggja blessun sína yfir Ísland í því horni sem bankamennirnir voru búnir að mála okkur út í. Enda væntanlega nóg um aðrar þjóðir sem áttu þrátt fyrir allt í meiri vandræðum en íslendingar.

Það sem þetta undirstrikar vel er að þrátt fyrir allt masið um einhvern guð, þá eru þetta bara innihaldslausar málvenjur sem byggja nákvæmlega á ekki neinu.

Er ekki kominn tími í alvöru til að aðskilja ríki og kirkju?


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband