Gott og vel, en samt...

Ég verð að játa að kjánahrollurinn við að heyra lokaorðin á sínum tíma toppaði nánast skelfilegt innihald skilaboðanna að öðru leyti.

En að vissu leyti er ágætt að heyra að þáverandi forsætisráðherra leit á þetta sem innihaldslaust raus, þeas. hann ætlaðist ekki beinlínis til að ósýnilegi ímyndaði guðinn færi að gera sér sérstakt far um að leggja blessun sína yfir Ísland í því horni sem bankamennirnir voru búnir að mála okkur út í. Enda væntanlega nóg um aðrar þjóðir sem áttu þrátt fyrir allt í meiri vandræðum en íslendingar.

Það sem þetta undirstrikar vel er að þrátt fyrir allt masið um einhvern guð, þá eru þetta bara innihaldslausar málvenjur sem byggja nákvæmlega á ekki neinu.

Er ekki kominn tími í alvöru til að aðskilja ríki og kirkju?


Heilbrigð æska, pönk og Kópavogur

Gaman að sjá sýninguna "Heilbrigð æska, pönkið og Kópavogurinn" á laugardag í Tónlistarsafni Íslands í Kópavogi - enda málið skylt.

Þeim Heiðu og Pétri hefur tekist alveg sérstaklega vel til við að finna skemmtilega fleti á viðfangsefninu - landakort með helstu kennileitum, lyktin sem fylgdi (að mér skilst, verð að játa að ég mundi ekki eftir henni), tíkallasími með tónlist og opnun á undirgöngunum við gömlu skiptistöðina.

Gestafjöldinn við opnunina kom heldur betur á óvart og nokkur andlit sem við höfum ekki séð lengi.

Blóð og HFF spiluðu nokkur lög við opnunina, en þar sem við Fræbbblar erum komnir í dvala - hugsanlega endanlegan - gátum við ekki spilað. Við Assi, Helgi og Iðunn spiluðum nokkur gömul lög með aðstoð Gumma.


Hljómleikaflakk

Iðunn í sumarbústað og notaði kvöldið í hljómleikaflakk.

Byrjaði á Dillon að hlusta á HFF, þeas. Steina, Árna Daníel, Rikka, Gumma og Óðinn. Rosalega þéttir og vel spilandi, sérstaklega framan af. Ef eitthvað var hefði söngurinn mátt heyrast betur. Dillon er reyndar vanmetinn hljómleikastaður, virkaði amk. mjög vel.

Stökk frá Dillon á Grand Rokk, en hafði þá misst af Blóð og Insol. Náði hins vegar Hellvar, sem voru mjög flott, hef reyndar ekki séð þau (eða heyrt) oft á hljómleikum, en þetta bar af. Gæfi samt hægri hendina (ja, vinstri, amk. einhverja putta) fyrir að heyra þau með trommara í staðinn fyrir trommuheila. Var ekki alveg að kveikja á hvað var að trufla mig fyrr en ég fór að skoða sviðið og sá að það var enginn trommari.

Dr. Gunni átti sérstaklega gott kvöld, sennilega það besta sem ég hef séð til hans, þó ég hefði alveg þegið fleiri lög. Ekki svo að skilja að það sé eitthvað að nýju plötuinni, en lögin njóta sín miklu betur á hljómleikum. Kannski mín sérviska, og sennilega er þetta frekar regla en hitt, en mér finnst miklu skemmtilegra að heyra lög á hljómleikum en af plötum.

Svo aftur á Dillon þar sem Andrea sá um tónlistina og endaði með Árna Daníel og Rikka á Ölstofunni.


... er þetta kannski rétt hjá honum?

Það er alltaf auka álag á viðbjóðs-tilfinninguna sem maður fær við að lesa svona fréttir þegar á bætist að glæpurinn hafi verið framinn í nafni guðs og guð standi á bak við þetta allt saman.

Svo bætist við annar hrollur - kannski líta kristnir menn á þennan mann sem sinn spámann í framtíðinni.. því hvað er ólíkt með honum og spámönnum biblíunnar?

Guð talaði til þeirra og skipaði þeim hitt og þetta. Þeir hlupu til og myrtu, nauðguðu og hnepptu fólk í þrældóm.

Fáránlegt?

Veit ekki, munið að minnsta kosti að fordæma alla glæpamennina í biblíunni á meðan þið eru að fordæma þennan.

Ég geri það.


mbl.is Telur sig sendiboða Guðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vanmáttur bænarinnar

Það er kannski illa gert að gera mál úr þessari frétt - og þó ekki - þetta er augljóslega óendanlega sorglegt og fráleitt að hugsa til þess að þetta gerist í dag - en það er nauðsynlegt að hamra á því sem skiptir máli.

Það má nefnilega ekki gleyma að þetta er ekkert einsdæmi - og það sem verra er - í minni mæli og ekki alveg eins sýnilegri - er fólk að hafna einföldum vívsindalegum staðreyndum, td. í læknisfræði, fyrir alls konar bábiljur, hvort sem um er að ræða bænir til ímyndaðra vera eða hvers konar kukls í lækningaskyni. 


mbl.is Reyndu að lækna dóttur sína með bænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvar eru rökin?

Ég er að láta þessa svokölluðu fréttaskýringu fara í taugarnar á mér - það koma einfaldlega engin rök fyrir lækkun á hámarksmagni fram.

Svo ég byrji nú vinsælda rökvillunni,"Allir sem Morgunblaðið ræddi við voru sammála...". Eru þetta rök? Hverja var rætt við? Hver voru þeirra rök fyrir sinni skoðun? Ég get örugglega rætt við nokkra vel valda félaga og fengið gagnstæða niðurstöðu, "allir sem ég ræddi við voru sammála..."

Og óljósu rökin "en rannsókn sænskra umferðaryfirvalda bendir til þess að umferðarslysum hafi fækkað í kjölfarið" segir auðvitað ekki neitt. Annað hvort sýndi rannsóknin afdráttarlaust fram á að umferðaslysum hafi fækkað beinlínis sem afleiðing af breytingunum - eða ekki.

Eru einhver rök fyrir því að lækka mörkin? Eru einhver dæmi um slys vegna þess að ökumaður hafi verið á þessu bili?

Þetta er svo sem í anda þeirra löggjafa sem virðast vera í tísku - sýndarmennska sem hljómar vel, tekur ekki á raunverulegu vandamáli en setur almennar og óþarfar takmarkanir.

Ef þetta verður samþykkt ætla ég að bjóða Penn og Teller í heimsókn, þeir hljóta að vera að leita að nýju efni.


mbl.is Blátt bann við akstri og áfengisneyslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein þvælan orðin að "frétt"

Eru í alvörunni engin takmörk á þvælunni sem birtast sem "fréttir"?

Nei, auðvitað ekki, en þetta toppaði samt á svo mörgum sviðum.

"Ekki sjáanleg með berum augum"... sem sannast hvernig?

Og ef rétt er, hvort er líklegra, galli í myndavélinni / linsunni / símanum eða geimskip? Ef þetta eru "geimskip" er þá símamyndavélin orðin "skyggn" (þeas. á geimskip)? Hvaða eiginleikar símamyndavélar nema breytingar á ljósi sem mannlegt auga greinir ekki?

Og ef þetta er ekki sjáanlegt með berum augum, hvers vegna sést þetta með berum augum á myndinni?

"Hann þvertekur fyrir að um fölsun sé að ræða" - ég kann líka á PhotoShop og get þvertekið fyrir hvað sem er til að komast í blöðin - að ég tali nú ekki um ef ég fæ borgað fyrir, sem bresku blöðin eru örugglega nógu vitlaus til að gera.

 


mbl.is Geimverur yfir London?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leiðari börn í trúfélögum..

Ég er enn að reyna að botna í sunnudagsleiðara Moggans..

Þar er því haldið fram að vegna þess að fjölskyldan kenni börnum siðfræði og kynni þeim lífskoðanir sé rétt, jafnvel nauðsynlegt, að leyfa að skrá þau í trúfélög.

Þó ekki væri annað, datt leiðarahöfundi aldrei í hug að kenna mætti börnum siðfræði á heimilinu án þess að hlaupa til og skrá þau í trúfélag?

Eða er þetta svona sláandi dæmi um hugsun sem er föst í hjólförum kirkjunnar?


Vangaveltur um persónukjör

Svo það sé á hreinu þá fagna ég auðvitað frumvarpi um persónukjör, því þó hænufet sé, þá er það í rétta átt og sennilega eina leiðin án stjórnarskrárbreytingar.

En nokkur atriði sem mættu kannski fara betur.

Í frumvarpinu segir að hluta skuli til um hverjir komast á lista ef fleiri bjóða sig fram en mega vera á lista í hverju kjördæmi. Ég óttast að þetta geti fælt flokka frá því að bjóða fram óraðaðan lista. Það gæti hæglega þýtt að leiðtogi viðkomandi flokks kæmist ekki á lista. Mætti ekki einfaldlega skipta framboði upp í tvo (eða fleiri) lista undir sama listabókstaf, þeas. "X" og "XX"? Til að það sé raunhæft þyrfti reyndar að breyta ákvæði kosningalaganna sem segir að á hverjum lista skuli vera nákvæmlega tvöfaldur fjöldi þingsæta í viðkomandi kjördæmi, til dæmis þannig að það sé einungis hámarksfjöldi.

Önnur leið væri auðvitað að  engin takmörkun væri á fjölda frambjóðenda á lista, en kannski þyrfti í því tilfelli að gera kröfur um aukinn fjölda meðmælenda.

Kom ekki til greina að leyfa hreyfingum að ákveða röð nafna á lista, þó það hafi ekkert annað vægi en að vera tillaga viðkomandi hreyfingar?

Hefði ekki verið einfaldara að nota sömur reiknireglur við úthlutun þingsæta hvort sem listi er raðaður eða óraðaður?

Látum orðalag í frumvarpinu liggja á milli hluta, amk. að sinni.


mbl.is Leggja fram frumvarp um persónukjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarskráin

Ég var að heyra að ekki þætti rétt að kjósa strax til stjórnlagaþings þar sem ekki sé rétt að hrófla við stjórnarskránni nema að vel ígrunduðu máli.

Stjórnlagaþinginu er reyndar ætlað að ígrunda málið vel, þannig að þau rök halda varla.

Og ekki er stjórnarskráin sem við höfum í dag merki þess að vel ríflega hálfrar aldar ígrundun skili góðu skjali.

Ég var nefnilega að velta fyrir mér hvaða ákvæði kosningalaga væru bundin í stjórnarskránni og hver ekki þegar mér datt í hug að finna stjórnarskrána og lesa. Ég fann hana á http://www.althingi.is/lagasofn/nuna/1944033.html og vonandi er það rétt útgáfa. Eða nei annars, ég vona innilega að það sé ekki rétt útgáfa.

Ég hafði á sínum tíma þá mynd af stjórnarskráin að hún væri nokkurs konar grunnur eða rammi fyrir önnur lög og stjórnsýslu. Eitthvað sem skilgreindi algjör grundvallaratriði og mætti bókstaflega meitla í stein, því varla væri ástæða til að breyta nokkru sem í henni stæði.

Það fyrsta sem ég rak augun í var tilvísun í „Landsdóm“ sem hvergi er skilgreindur frekar eða útskýrður.

Ekki get ég heldur skilið hvers vegna óteljandi smáatriði við forsetakosningar eru bundin í stjórnarskrá, td. hámarks- og lágmarksfjöldi meðmælenda frambjóðanda. Má þetta ekki vera hlutfall kjósenda, eða einfaldlega sett með lögum? Enda stendur rétt á eftir að það skuli að öðru leyti ákveða um framboð og kjör forseta með lögum.

Síðan koma margar greinar um hlutverk forseta. Sem mér skilst að séu svo túlkaðar þannig að ein þeirra - þess efnis að forseti láti ráðherra framkvæma vald sitt - þýði að nánast alltaf þegar talað er um forseta sé í rauninni átt við ráðherra. Hefur engum dottið í hug í tæp 65 ár að breyta textanum einfaldlega í „ráðherra“ þar sem við á?

Ekki einfaldast þessar vangaveltur þegar greinin „Forseti skipar ráðherra og veitir þeim lausn“ er lesin. Túlkast þetta þá þannig „Ráðherra skipar ráðherra“? Er þá aldrei hægt að byrja? Í upphafi er jú enginn ráðherra til að skipa þann fyrsta? Eða get ég skipað mig ráðherra í skjóli þess að ég er orðinn ráðherra eftir að ég skipaði mig?

Það næsta sem ég rak augun í er grein þar sem vísað er í Háskóla Íslands. Í stjórnarskránni. Hvað ef hann leggst af? Skiptir um nafn?

Þeirri grein fylgir svo reyndar að þessu megi breyta með lögum.

Og þar er ég kominn að því sem sennilega truflar mig mest. Í stjórnarskránni er aftur og aftur kveðið á um eitthvað og svo jafnharðan dregið til baka með því að segja að því megi breyta með lögum. Hvers vegna í ósköpunum er verið að eyða ákvæðum í stjórnarskrá í atriði sem eru svo réttlægri en lagaákvæði?

Og sumar greinar segja einfaldlega að eitthvað skuli ákveðið með lögum? Eiginlega hálf tilgangslaust að taka það fram.

Meira.

Það eru nokkur atriði að trufla mig einfaldlega vegna þess að þau eru ekkert sérstaklega skýr

·         tilvísun í „gott siðferð“ sem ég er amk. ekki viss um að allir séu sammála um hvernig á að túlka

·         ritskoðun sem aldrei má setja, en má svo samt setja í frekar óljósum tilgangi

·         eignarréttur er friðhelgur, nema, nema og nema

·         atvinnufrelsi er tryggt, en má samt setja skorður

·         það má banna fundi undir berum himni á óljósum forsendum og ekki tilgreint hver hefur vald til þess

Og... allir skulu vera jafnir án tillit til kynferðis og fleiri atriða. Og svo er tekið fram að konur og karlar skuli njóta jafnréttis. Ekki hef ég neitt að athuga við að ákvæði um jafnrétti séu skýr, nema síður sé, en svona tvítekning virkar meira eins og spjall eða ómarkvissar hugsanir upphátt, frekar en skýr og skorinorð stjórnarskrá.

Til að klára nú að nefna dæmi um atriði sem trufluðu mig, við þennan fyrsta lestur, þá er uppsetningin eins og hún birtist á vefnum hálf ruglingsleg. Ég skil ekki hvaða tilgangi opnir kassar á undan sumum málsgreinu þjóna. Þaðan af síður átta ég mig á hvaða erindi hornklofar [] eiga utan um setningar að því er virðist af handahófi. Og nokkrir punktar í röð þýða yfirleitt í mínum huga eitthvað til að hugsa frekar um...

Já, og kosningalögin sjálf, sem var nú upphaflega ástæðan fyrir að ég fór af stað, kosta eiginlega sérstaka færslu...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband